Þetta er algjörlega geggjað

Hvað vorum við að pæla, er hugsun sem kom gjarnan upp fyrstu dagana. Maður lagðist á koddann og þá komu efasemdirnar fljúgandi í kollinn. Og ég sem er kvíðakall á sérlega auðvelt með að mála skrattann á vegginn. En svo sest allt og það fer að komast smá rútína á mannskapinn og um leið fer maður sjálfur að róast og átta sig á hvað þetta er geggjað. 

Strákarnir búnir með tvær vikur í skólanum og líkar nokkuð vel. Finnst þetta skiljanlega erfitt en samt glaðir og kátir með þessa upplifun. Svo var foreldrafundur með skólastjóranum í síðustu viku og við boðuð á skrifstofu skólastjóra með túlk með okkur. Púfff ég varð nú bara dálítið stressaður við tilhugsunina að hitta skólastjórann og var svo sannarlega búinn að ímynda mér að þetta væri allt mjög flókið og erfitt fyrir þá/okkur. En svo kom á daginn að þær, skólastýrurnar eru konur og kennararnir flestir karlar, að þær voru voða ljúfar og brostu og allt. Það er nefnilega ekkert algengt viðmót hjá hinu opinbera. Skólinn hér er öðruvísi, mikið lært í skólanum, stuttar frímó, stutt hádegi og mikill heimalærdómur. Eðli málsins samkvæmt þá óx þetta okkur í augum. Því ef þú stendur þig ekki í 1-10. bekk máttu gjöra svo vel að taka bekkinn aftur á næsta ári. En raunin er sú að þeir fá tækifæri til að einbeita sér að spænskunni mest og fá bara metið í vor áhugann og auðvitað árangurinn með tilliti til þess að þeir kunna ekki spænsku. Þannig að þetta lítur bara vel út. 

Við skiptum um íbúð næstu helgi, tökum formlega við henni á sunnudaginn og við getum hreinlega ekki beðið. Komast í hreiðurgerðina, fá net, geta horft á sjónvarp og gengið frá úr töskunum okkar. Við vissum svo sem fyrirfram að það væri ekki víst að fyrsta íbúðin væri mikið happ en lukkan var með okkur þegar við fundum íbúðina sem við förum í næst. Sú er í Los Cristianos í göngufæri frá skólanum og þar sem strákarnir fara í frísundir. Krúttlega blokkaríbúð með fínu plássi og auðvitað fínni sundlaug. 

Ég er aðeins farinn að undirbúa vinnuna fyrir Víta, máta gönguferðir og farið í nokkra hjólatúra. Ég get eiginlega ekki beðið eftir að fá að vinna aðeins aftur, orðinn mánuður síðan ég vann síðast og ég viðurkenni að það tekur á að vera í fríi. En þetta fer allt að gerast, geri ráð fyrir að fyrsti hópur sem ég fer með í Masca verði eftir tvær vikur. 

Annars er um að gera að fylgjast með á Snapchat og Instastory 

Snap: svalik 

Insta: svalikaldalons 


Fyrsta vikan

Hola amigos, nú er liðin ein vika frá því að við komum út. Það er svo ótrúlega margt sem hefur flogið í gegnum hausinn á okkur að það hálfa væri nóg. 

Spenningurinn var mikill þegar við vorum að leggja af stað, það er skrítið að fara í flug og vita að maður er ekki beint á leiðinni til baka á næstunni og ekki gekk erfilega að kveðja eða neitt slíkt þetta var bara allt svo skrítið. 

Við lentum í 23 stiga hita og vorum ofur spennt að sjá íbúðina sem við erum búin að skoða 300 sinnum á þessum fáu myndum sem við fengum. Spenningurinn breyttist í veruleg vonbrigði. Íbúðin sjálf er fín, æðislegar svalir, geggjað útsýni, sundlaug og stofan er fín. En það vantar megnið af  húsgögnunum sem um var talað. Svo hefur gengið erfilega fá því viðbætt sem okkur vantar, þannig að við ætlum að finna aðra íbúð sem fyrst. Við gerðum við hann(eigandann) 3 mánaða samning en hann sagði við okkur að við gætum losnað út fyrr ef við gæfum honum 15 til 20 daga. Margir spurt mig á snappinu afhverju við komum okkur ekki bara fyrir þarna, frábær staður og íbúðin í lagi og svona. En málið er bara að við erum að borga 1500e á mánuði fyrir þetta og miða við það sem maður getur fengið fyrir þetta verð hér að þá langar okkur að skipta. 

Hausinn hefur verið að stríða manni og ég viðurkenni að ég svaf ekki mjög mikið fyrstu 3 dagana. Margt sem ég hugsaði og þá aðallega" hvað ertu búinn að koma þér útí". Lá í ókunnugu rúmi í ókunnugu landi og þykist ætla að fara að vinna hér og að öllum í fjölskyldunni líki við þessa dvöl. En sem betur fer þá erum við samstíga í þessu og við eigum góða að hér úti sem brosa út í annað og benda manni á að þetta hafi verið nákvæmlega eins hjá þeim. Þá man maður að þetta er alveg hægt og þetta er ekki svo galið. 

Að vakna með bláan himinn alla daga kl 08 er geggjað. Pínu furðulegt að átta sig á að hér gerir maður aðra hluti en heima og það tengist allt veðrinu. Maður segist ekki láta veðrið stoppa sig heima en maður gerir það samt. Við ætlum að vera í frígírnum fram í næstu viku en þá fara skóla málin í gang hjá strákunum og einhver rútína fer að myndast. 

Eitt að lokum, ég mæli svo mikið með því að prufa að eyða áramótum hérna úti. Það var svakalega gaman. 

Snapchat:svalik 

Instagram: svalikaldalons

Mbk, Tenerife gengið á Calle Galicia.Síðasta myndin á klakanumGamlárskvöld

 

 


Það er komið að því

Úfff, jæja það er komið að því. Við förum í fyrramálið kl 09, laugardagurinn 30.desember, dagur sem við höfum beðið eftir. 

Það hefur gengið á ýmsu síðustu daga og við höfum þurft að hafa okkur öll við að skrúfa hausinn rétt á. Það er dálítið átak að rífa alla upp með rótum og hefja þetta ferðalag. dagarnir milli jóla og nýárs hafa eingöngu farið í að ganga frá öllu og sem betur fer höfum við haft góða að til að aðstoða með krakkana og öll verkin. Höfum ekki náð að vera í þeim jólaanda sem við erum oftast í. En allir eru brattir og spenntir, en auðvitað örlar fyrir kvíða líka. 

Þetta er þannig verkefni að maður þarf að ná að sleppa tökunum á öllu sem maður telur vera norm og taka bara einn dag í einu. Það er allavegana mottóið hjá okkur núna. Við erum með 7 stórar töskur, 5 í handfarangri, kerru og eitt stykki reiðhjól meðferðis. Skrýtið að hugsa til þess að það eigi að vera nóg fyrir okkur öll svona miða við draslið sem maður er búinn að fara í gegnum, maður lifandi hvað maður getur hangið á miklum óþarfa.

Þetta er pínu skrítinn tími og það náði toppi (hingað til) þegar við vorum búin að tæma íbúðina og vissum að þangað vorum við ekki að snúa aftur. Höfum búið þarna í rúm 9 ár og því eðlilega margar minningar sem tengjast henni. En það góða er að við erum að fara að skapa nýjar og frábærar minningar. Það er auður að geta ferðast, skoðað og lært á lífið með margbreytilegu sjónarhorni. 

Næsta blogg sem verður skrifað verður skrifað á svölunum heima á Calle Galicia, Costa Adeje. Getið líka fylgst með á Snappinu mínu, Svalik.  Bestu kveðjur í bili, Svali og co. 

Snapchat-2079874431

 


Tólf dagar og vinna í höfn

Ég er himinn lifandi, fékk staðfest í dag að ég er kominn með vinnu á Tenerife. Mun semsagt fara að gera allt það sem mér finnst skemmtilegt og fá greitt fyrir það. Já, hreyfiferðir í boði fyrir viðskiptavini Vita. 

Ég semsagt fer stratenehjólx af stað þegar út er komið í að finna hentugar hjóla og hlaupaleiðir ásamt því að finna aðra skemmtun sem hentar flestum á Tenerife og munu Vita farþegar geta gengið að því vísu í vetur.  Það örlar fyrir spenningi á heimilinu þessi misserin, því nú eru bara(þegar þetta er skrifað) 12 dagar í að við förum. Maður er búinn að pranga töskum inná alla sem við þekkjum og eru á leiðinni til Tenerife um jólin. Sængurnar, íþróttafötin ,sundskýlurnar og þetta helsta semsagt komið í töskur. 

Svo er reyndar annað verkefni sem kemur í ljós á næstu dögum sem gæti tekið við á nýju ári í viðbót við Vita verkefnið :-) 

Snappið: svalik 

 

 

 


Yes, íbúðin er klár.

Það var /%#%#/&/(%$ mikið. Loksins búin að klófesta íbúð í Adeje þorpinu, aðeins frá öllum skarkalanum. Akkúrat það sem okkur langaði, held ég. En vá hvað þetta er búið að vera erfitt, það er svo þétt setið um allar íbúðir og eyjaskeggjar ekkert sérstaklega að taka tillit til þeirra sem eru ekki á svæðinu og vilja bara ganga frá þessum málum í gegnum netið og síma. Það er mikið mildi að við þekkjum nokkur góð á eyjunni sem tóku málin í sínar hendur og redduðu okkur. 

Íbúðin er vonandi frábær, við höfum nefnilega ekki séð hana nema í stutta stund í myndsímtali. Það náðist ekki að taka myndir af henni því hún var eiginlega ekki komin á leigu þegar við fréttum af henni. En það hefði ekki gerst ef að við hefðum ekki haft fólk á staðnum. Tenerife er nefnilega orðin óheyrilega vinsæl hjá ferðalöngum til langs og skemmri tíma. T.d kíktum við á eina íbúð í vikunni og við vorum nr 15 í röðinni að skoða hana. Ef þú hélst að markaðurinn hér heima væri erfiður þá er það mikill misskilningur. En þetta gekk og við erum alsæl. Hver er ástæðan fyrir því að allt er á súðum á íbúðamarkaðnum? Sennilega það að Tyrkland, Grikkland og fl lönd þar á slóðum eru að ganga í gegnum erfiða tíma, ófrið í landinu eða efnahags hrun. Það gerir það að verkum að Tenerife hefur sjaldan eða aldrei verið jafn vinsæl. 

Leiguverðið er hátt miðavið t.d bara í fyrra, og það kemur bara til með að hækka meðan ófriður er enn á sumum stöðum í Miðjarðarhafinu. En samt sem áður er verðið grín í samanburði við það sem er að gerast hér heima. Þá er bara að byrja að pakka í þær töskur sem við getum sent út á undan okkur. Einhver á leiðinni til Tene og langar að taka eina til tvær töskur með sér? :-)  Ég er svo með SnapChat þar sem ég mun leyfa öllum að fylgjast með sem vilja. SnapChat: svalik  

Þangað til næst, bestu kveðjur .spaniaspánn


Gengur allt hægt

Jæja rétt að koma með stöðu mála eins og hún er núna í ferlinu. Við erum búin að vera með íbúðina okkar á sölu og finnum mikið fyrir því að markaðurinn er rólegur og fólk ekki að flýta sér mikið að kaup. Ég er hinsvegar mikið til í að flýta mér að selja, langar svo að klára þann feril svo ég geti einhvernvegin verið rólegri í skinninu með þetta allt. Fjöl mörg verkefni eftir en svo fáir dagar í brottflutning(30.desember).

Við liggjum á netinu alla daga að finna íbúð úti og erum til skiptist í sambandi við vini sem búa á Tenerife og svo "íbúðarfinnara", það er víst starf sem hægt er að vinna við þarna úti. Það er reyndar frábært að hafa eina slíka týpu í því verkefni. Við erum t.d að tala við eina sem heitir Sue, og starfar fyrir og á Bargain Properties. Hún sendir mér info mörgum sinnum á dag og ráðleggur mér eftir bestu getu. Hún fær borgað frá mér ef hún finnur íbúð og gengur frá samningnum. Þá fær hún jafnvirði mánaðar leigu. Erum sem stendur með tvær íbúðir sem okkur lýst vel á og losna í desember. Við erum nefnilega með dálítið þröngt sem við leitum eftir því við viljum vera á ákveðnu svæði sem næst skóla drengjanna, helst með 3 svefnherbergi, ekki á mörgum hæðum, þarf að losna í desember, vera laus í a.m.k í 6 mánuði og svo auðvitað sundlaug í garðinum. Þetta er að reynast dálítið vandasamt þar sem þetta er há anna tími á Tenerife, en þetta skal takast. 

Margir að spyrja okkur um hvað við ætlum að gera. Skiljanlega er gott að hafa eitthvað að gera en um leið skiptir líka miklu máli að gera ekki of mikið eftir að komið er út. Ná að lenda í rólegheitunum og passa upp á að drengirnir aðlagist vel. En ég mun starfa að einhverju leiti í svokölluðum "activity ferðum" , hlaup, hjól, göngur og fleira í þeim dúr. Þannig að mínir fyrstu mánuðir fara í að kynna mér aðstæður og læra að þekkja og búa til skemmtilegar ferðir fyrir íslendinga sem koma út. Það er gríðarlega mikið hægt að gera þarna annað en að liggja í sólbaði og fá sér bjór, náttúran alveg geggjuð og tilvalin til útivistar. 

Það er skrítið að far aí gengnum dótið sitt og ákveða hverju skal fórna og hverju ekki. En um leið og það er skrítið þá er það  pínu gaman líka. hvað skal


Næstu skref.

Ekki hefði ég getað ímyndað mér hvað við eigum mikið af óþarfa dóti. Þetta kemur í ljós þegar maður fer í gegnum skápana. Úlpurnar, peysurnar, útivistarfötin, íþróttafötin, fínu fötin og fleira í þeim dúr. En það er ekki bara það, hvað með bollastellið, glösin, diskana, eldföstu mótin og allt það dót. Þetta þarf allt að fara, þar sem við höfum ekki stað til að geyma allt þetta dót á. Viðurkenni það að mér verðu um og ó þegar við förum í gegnum þetta. 

Stutt í þetta en samt eitthvað svo langt, 30.desember er dagurinn. Tilboð komið í íbúðina en auðvitað með fyrirvara um sölu á hinni eigninni, svona gengur það bara. En ég hlakka til að vera búinn að selja því þá er sá óvissu faktor horfinn og maður getur einbeitt sér að þeim næsta. Og já það eru nokkrir óvissu faktorar en það er partur af þessu. Við ætlum okkur að vera ekki með allt planað í þaula, en vita nokkurn veginn hvert við stefnum. Viðurkenni það að það er pínu erfitt að sleppa tökunum. 

fjölskyldan

Eitt af erfiðari verkefnum fyrir flutning er nú lokið. Við þurftum að koma Vask inn á annað heimili. Vaskur er eða var semsagt hundurinn okkar. Eins árs Schnauzer sem kom til okkar sem 8. vikna hvolpur. Þetta var mun erfiðara en ég hafði getað ímyndað mér, tengingin við hundinn er svo mikil að þetta var íll gerlegt. En hann er kominn á gott heimili þar sem hann mun dafna vel. Ástæðan fyrir því að hann fer ekki með er sú að það eru of mörg húnsæði sem banna hunda og það er nógu erfitt að finna húsnæði yfirhöfuð. Þannig að sú ákvörðun var tekin á einum fjölskyldu fundinum í haust. 

 

 

 


Eigum við að flytja til Tenerife?

 

mascaÍ vor ræddum við hjónakornin um að fara til útlanda í sumar, kíkja í sólina. Tenerife vara staðurinn sem var í umræðunni. Ég á góða félaga sem búa þar og var búinn að fá þá til að svipast um eftir íbúðum fyrir okkur til leigu. Í framhaldinu af því kom þessi umræða upp um að flytja þangað bara. Höfum reyndar aldrei komið þangað en engu að síður þá ræddum við það. Að prufa að búa í afslappaðara samfélagi en hér, búa í hita allt árið og geta lært nýtt tungumál. Þessi stutta umræða fór á þann stað að við skutumst út í haust til að kíkja á aðstæður og skoða skólamál fyrir drengina. Það er skemmst frá því að segja að við ætlum út þann 30. desember næstkomandi.  Já við ætlum líka að selja allt, íbúðina og innbúið.

Ég væri að ljúga ef ég segði að ég fengi ekki bakþanka af og til, en aðalmálið er að það er komin ákvörðun.  Við fáum alltaf spurninguna hvað ætlið þið að gera þarna? og í kjölfarið kemur svo fullyrðing um hvað við erum hugrökk. Mér finnst það alltaf pínu broslegt að hugsa um að þetta sé hugrekki, í augnablikinu finnst mér þetta bara vera frábært tækifæri í lífinu. Ég meina ef þú pælir í því að þá gerum við alltaf bara sama hlutinn aftur og aftur ár eftir ár. A.m.k er það þannig hjá mörgum.

Það sem hefur verið ákveðið er að við ætlum að læra tungumálið og einhenda okkur í það. Í framhaldinu mun koma betur í ljós hvað við gerum og hvar nákvæmleg við ætlum að búa á eyjunni fögru.  Vissulega eru ýmsar hugmyndir en meira um það síðar. Við horfum bara á þetta þannig að það er í raun ekkert sem bindur okkur heima og því lítið annað að gera en að kíla á þetta.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband