Tvö Ár

Tvö Ár



Tvö ár og við lifðum það af. Í upphafi þegar við Jóhanna ræddum þetta sumarið 2017 að flytja út, þá vissum við að við mundum aldrei gera það fyrir minna en 2 ár. Núna í dag, 30.desember 2019 eru árin tvö liðin. Þvílíkt sem tíminn líður, ótrúlega margt búið að gerast á öllum sviðum,  hjá okkur hjónunum, drengjunum og vinnulega séð. Ég er svo ánægður með að hafa lagt upp í þetta ferðalag með svo sem engar sérstakar væntingar, en einhvernvegin hefur allt gengið upp. 

Og strákarnir: Í dag eru þeir altalandi spænsku. Þeir eiga alltaf eftir að búa að því sem þeir hafa lært hér nú þegar. Þetta er búið að vera þeim heilmikil ögun.. Það er strangur agi í skólanum og okkur er ljóst að það er að gera þeim gott. Fullorðnast líka hraðar, þeir eru búnir að læra að fara langt út fyrir boxið og takast á við hluti sem þeir hafa verið smeykir við, og það á eftir að skila sér til þeirra í gegnum lífið. 

Við hjónin höfum að sjálfsögðu þurft að takast á við ýmsa hluti. Þetta var allt nýtt fyrir okkur og allt þetta einfalda í lífinu verður aðeins flóknara hér, t.d bara að fara til læknis, díla við bankann, fara með bílinn á verkstæði og eitt og annað í þessum dúr sem er svo lítið mál heima. En það reynir líka á, að við erum bara tvö hér, erum saman öllum stundum. Vinir okkar að heiman eru ekki til staðar og hvorki foreldrar né systkini. En það styrkir okkur jafnframt, að við höfum aðeins  hvort annað til að treysta á. Þetta er klárlega verkefni en styrkir okkur sem hjón.  

Það er frábært að búa í öðru landi, gerir heilmikið fyrir alla. Gott að geta séð Ísland úr fjarlægð og þurfa ekki að hugsa um daglega amstrið þar. Það er líka gaman að sjá hvað við Íslendingar erum magnað fólk og gerum margt ótrúlega vel. En það er líka athyglisvert að sjá hina hliðina, því það er svo margt heima sem betur mætti fara. Í smæð okkar ætti ekki að vera mikið mál að breyta til og lagfæra. Notfæra sér smæðina og gera betur. 



TenerifeFerðir hafa gengið mjög vel. Fluttum 2995 farþega frá mars og út desember. Við erum mjög sátt við það. Við erum búin að ná til um 12% af öllum íslensku farþegunum sem komu hingað frá og með marsmánuði og fram að þessum tímapunkti í desember. Nú er bara að bretta upp ermar og gera betur. Gera ferðirnar sem við erum með betri og auka úrvalið á því sem við höfum upp á að bjóða. Erum byrjaðir á nýrri heimasíðu sem verður opnuð innan tíðar og þar geta menn á auðveldan hátt skoðað og verslað ferðirnar áður en hingað er komið. Þá verðum við líka klárir fyrir næstu jól að selja gjafabréf. Það var alveg magnað hvað það voru margir sem vildu gefa gjafabréf í ferðirnar okkar. Á næsta ári verður sú áætlun tilbúin. www.tenerifeferdir.is 



Að lokum er rétt að nefna að það eru svo sem engar áætlanir í gangi um hvenær við snúum aftur til Íslands. Það er ljóst að á meðan nóg er að gera hjá okkur í ferðunum,  þá er engin ástæða til þess að hugleiða heimför. Einn möguleikinn er þó sá að við komum til með að vera til skiptis á báðum stöðum. En það er seinni tíma mál. Bestu kveðjur frá okkur hér á Tenerife, óskum  ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Bestu þakkir fyrir að fylgjast með okkur fjölskyldunni.

Hægt að fylgjast með okkur hér: 

Instagram: Svalikaldalons

SnapChat: Svalik

FB: Svali á Tenerife

www.tenerifeferdir.is 


Lífið!

Lífið!

 

Hola amigos. Héðan, sunnan úr Atlantshafi er allt býsna gott að frétta. Get svo svarið það að suma daga geng ég um göturnar og hugsa hver fjandinn: Vá hvað þetta er búið að vera mergjað ævintýri. Miklu fleiri góðir dagar en slæmir. Velti því stundum fyrir mér að það hljóti að hafa verið einhver heillastjarna með okkur í þessu öllu, en leiði hugann líka að því  hvort búast megi við einhverjum skelli á næstunni, það hljóti bara að vera fyrst manni líður svona vel núna. Eða má kannski reikna með því manni líði alltaf svona vel? Ef til vill er það kvíða elementið í mér eða óöryggis faktorinn minn sem þarna nartar. En hvað sem því líður þá eru þessi misseri frábær. Af hverju svona frábær? Sennilega vegna þess að núna eru eldri drengirnir orðnir mun sáttari við að vera hér heldur en var í lok sumars, hafa eignast vini og lífið því eðlilegra. Þegar svona umbreytingar eiga sér stað þá verður þetta daglega í lífinu allt öðruvísi og það tekur tíma að aðlagast þannig að allt verði aftur venjulegt. 

Annað sem gerir þetta frábært fyrir okkur er, að við höfum náð að stofna okkar fyrirtæki sem gengur ljómandi vel, TenerifeFerðir. Af því að það gengur vel  hjá okkur þá skilar það sér til drengjanna og þeir skynja að við, mamman og pabbinn, erum ánægð og sátt. 

Og enn annað mál sem gerir þetta svona frábært, það er tíminn sem við eyðum saman á eyjunni. Stundum bara í að hanga saman heima og liggja í leti, fara út að borða saman, taka gönguferðir og eða bara spjöllum meira saman. Hér líður tíminn einhvern veginn öðruvísi en heima og ég hef engar skýringar af hverju. 

Þannig að: já, lífð okkar hér er alltaf að verða betra og betra, en auðvitað koma erfiðari dagar með tilheyrandi, en í það heila þá er tilveran býsna góð. 



Fyrirtækið!

 

TeneifeFerðir er fyrirtækið sem við Ásgeir Ingólfsson félagi minn stofnuðum fyrir ári síðan. Við sérhæfum okkur í ferðum um eyjuna með Íslendinga. Bjóðum upp á skoðunarferðir, gönguferðir, matar og vínferðir og  auðvitað önnumst við sépantanir fyrir hópa sem hingað vilja koma og bjóðum þeim upp á allskonar afþreyingu. 

Þetta hefur gengið vonum framar, og í október fór 551 farþegi með okkur í ferðir hér á Tenerife, ekki fjarri þvi að það sé um 15% Íslendinga sem komu í október. Erum stoltir af þessu, höfum náð á einu ári að koma okkur ágætlega fyrir hér og ætlum okkur meira. 

Mantran okkar, meginstefið, er að við fellum aldrei niður ferðir, þó að það sé bara einn bókaður þá förum við í ferðina og það hefur náð að skila sér.  Önnur hliðar mantra er sú að við viljum fókusa á að það sé gaman í ferðunum. Hæfilegur galsi í fararstjórunum en ábyrgð, öryggi og fróðleikur í fyrirrúmi. Erum persónulegir og veitum eins þægilega þjónustu og hægt er. 

Í dag er ferðin “Matur&Vín” vinsælasta ferðin okkar. Hún er farin alla laugardaga en í september, október og nóvember höfum við alltaf þurft að hafa aukaferð á föstudögum því laugardagarnir seljast gjarnan upp. Svo hefur það lúxusvandamál komið upp, að einnig er uppselt í aukaferðina á föstudögum. 

Við bjóðum upp á ferðir 6 daga vikunnar. Á mánudögum förum við  hringferðina um eyjuna. Á þriðjudögum erum við alltaf með sér ferð fyrir hópa sem hafa pantað hjá okkur. Einnig er  El Chinyero gangan á þriðjudögum. Á miðvikudögum er það Masca skoðunarferðin. Á fimmtudögum göngum við frá Santiago del Teide og yfir í týnda þorpið Masca. Á föstudögum er núorðið alltaf auka ferð í Matur&Vín en eftir áramót byrjum við með stjörnuskoðunarferð uppi í þjóðgarði með sérfræðingum frá stjörnuskoðunarstöðinni.  Á laugardögum er svo alltaf Matur&Vín en á sunnudögum erum við í fríi. Erum með heimasíðu www.tenerifeferdir.is þar sem hægt er að lesa allt um ferðirnar. Ný heimasíða er í smíðum og þá bætist það við, að hægt verður að greiða allt á netinu, sem verður okkur og farþegum til þæginda og hægðarauka.  

En útlitið er gott og við hyggjumst auka þjónustu okkar enn frekar og, erum komnir með einn höfðingja í vinnu hjá okkur sem heitir Óskar Gíslason frá Patreksfirði. Kynntumst honum óvænt í fyrra. Þannig var, að við vorum með stóran hóp fólks hjá okkur í sérstakri vikuferð, 5 göngur á 7 dögum sem varð til þess að hann aðstoðaði okkur í tvígang með þennan stóra hóp. Hann sagði okkur að hann ætlaði að eyða þessum vetri hér á Tenerife, og úr varð að við festum okkur hann þennan veturinn. Hann ætlar að taka göngurnar að sér og gengur nú um öll fjöll að finna nýjar leiðir sem gætu hentað til nýrra ferða sem við mundum síðan  bjóða upp á. 

Hópar og sér ferðir eru næst á dagskrá en það prógram byrjar í raun ekki fyrr en eftir áramót. 



Verðlag! 

 

Hef margsinnis séð umræðu á netinu þess efnis að allt sé mikið ódýrara annarsstaðar en  á Íslandi. Vil leiðrétta þann misskilning, allvega hvað varðar verðlag á Tenerife. Það er ódýrt fyrir íslending að vera hér með sín íslensku laun eða gjaldeyri. En ef ég er að vinna á ekta Canarý launum þá er sagan bara allt önnur. Í rauninni er flest allt dýrara hér heldur en á Íslandi sé kaupmátturinn settur inn í myndina. Skil vel að t.d ellilífeyrisþegar frá Íslandi hafi það gott hér en síður heima. En ellilífeyrisþegi hér hefur það alls ekki of gott. Dæmi: Ef við notumst við niðurstöður frá google, þá eru meðallaun launþega um 600 þúsund á Íslandi. Hér eru meðallaun um 1.100 E á mánuði, miðað við gengið í dag (138kr),  það gera þá kr.151.800. Miðað við þessar tölur er bensín, raftæki, nammi, tryggingar, leiga, föt og margt fleira mun dýrara hér. Dæmi: Nú er alltaf verið að auglýsa nýjan iphone dýrastu gerð, 1.640 Eur hér, en 226.320 kr eða 75.000(66%) meira en meðallaunin hér. Ef við heimfærum þetta á Ísland og meðallaunin 600.000 þá væri síminn að kosta 960.000 kr. Myndir þú fá þér símann á því verði? 

En rétt er að taka það fram að hann kostar “bara” 225.000 kr. á Íslandi og er rúmum 1.000 krónum ódýrari en hér á Tenerife.



Hjónin! 

 

Við Jóhanna erum kát og sæl saman á okkar vegferð. Við héldum upp á 5 ára brúðkaupsafmælið þann 18.október með vinum okkar sem komu í heimsókn. Við höfum verið saman á lífsins leið síðan 2001 og þekkjum því hvort annað nokkuð vel, en það getur auðvitað tekið á taugina að vera svona mikið saman og vinna alla hluti upp á nýtt, en það var líka fullt af hlutum heima á klakanum þar sem virkilega reyndi á. Að þessu leyti  breytist nefnilega ekkert við að flytja út. Ef það voru vandamál heima, þá munu þau dúkka upp hér líka. Þannig að ef þú ætlar að flytja út, vertu þá viss um að forsendurnar séu réttar. Við, ( einkum Jóhanna), sögðum alltaf að við myndum ekki vera hér skemur en tvö ár, ég sagði þrjú ár, og svona miðað við stöðuna í dag erum við ekkert á leiðinni heim á næstunni. Alltof mikið í gangi hér til að hægt sé að hlaupast frá því og fara aftur heim. 

 

Að lokum! 

 

Bestu kveðjur frá Tenerife, og ein staðreynd hér í lokin. El Teide, hæsta fjall Spánar er hæsti punktur Atlantshafsins og teygir sig upp í 3718m. Sendum hér með geggjaðar stuðkveðjur sunnan úr höfum. Okkur líður vel og þér vonandi líka. Við erum á Snapchat og Instagram ef þú vilt fylgjast með okkur. 

 

Svali

SnapChat : Svalik 

Instagram: svalikaldalons

FB - Svali á Tenerife 



Fyrirtækið 

FB: TenerifeFerðir 

Instagram: tenerifeferdir

www.tenerifeferdir.is

 

 


Nýr kafli á Tenerife

Það er langt um liðið síðan síðasta blogg kom, enda finnst mér oftast ekkert sérstakt hafa gerst sem vert er að segja frá. En svo koma tímar sem maður sest niður og áttar sig á að það er eitt og annað sem hefur gerst í Tenelandi. Það voru ákveðin tímamót hjá mér í lok apríl. Þá lauk minni vinnu hjá Vita. Ég átti upphaflega bara að leysa af út október á síðasta ári en það framlengdist út apríl. Þannig að nú stend ég hér og þarf að treysta á að við getum látið Tenerife Ferðir ganga upp. Tenerife Ferðir er fyrirtæki sem ég stofnaði í félagi við annan mann og við sérhæfum okkur í ferðum fyrir Íslendinga á Tenerife, hægt að skoða frekari upplýsingar um hvað á www.tenerifeferdir.is 

Við Jóhanna höfum líka verið að sinna fasteignum hér fyrir Íslendinga, séð um útleiguna, þrifin og fl í þeim dúr en núna höfum við tekið annað skref og tekið að okkur verkefni fyrir Zenterhouse fasteignasölu þar sem við aðstoðum íslendinga sem hingað koma við að kaupa fasteignir. Það getur tekið á að framkvæma kaup hér og margir sem notfæra sér það að útlendingar vita ekki hvernig markaðurinn hér virkar, þannig að þar stígum við inn og aðstoðum væntanlega kaupendur. Þannig að það er nóg að sýsla þessi misserin. 

Tókum okkur fimm daga frí á dögunum og skutumst til Dublin að hitta vini okkar þar. Áttum frábæra fimm daga. Það er skrítið að fara til útlanda og átta sig á að allt er dýrara í útlöndum en heima hjá þér. Pínu skrítinn snúningur, svona miða við að þegar maður fór frá Íslandi og eitthvað annað að þá var þar flest allt mikið ódýrara. Fannst líka dálítið skrítið að fara heim og vera fara heim í betra veður en í útlöndum. En þetta er eitthvað sem á eftir að lærast sennilega. 

Spænskan, hvernig gengur hún? Algeng spurning sem ég fæ. Hún gengur ágætlega, viðurkenni að ég mætti vera duglegri við að læra hana en næ stanslaust að selja mér að ég hafi of mikið að gera fyrir kvöldskóla, stundum dálítið til í því. En annars spjara ég mig ágætlega og skil langflest sem við mig er sagt. Drengirnir eru samt talandi og skrifandi spænskuna og komnir mun lengra en við. 

Annað mál sem hefur bögglast um í kollinum á mér og það er hversvegna ég má ekki borga skatta á Íslandi þó ég búi ekki þar. Ég er skráður inn í landið hér og borga skatta hér til Spánar í gegnum fyrirtækið mitt, en ég hef líka verið að vinna fyrir Íslensk fyrirtæki og borgað skatta af því á Íslandi. En nú má ég það ekki. Veit að þetta eru reglur og allt það en þær þarfnast endurskoðunar. Hvernig kemur það sér ílla fyrir Íslenska ríkið að ég borgi þeim skatta? Ég nota enga þjónustu á Íslandi en borga fulla skatta. Hélt að það væri í rauninni kjör þegn landsins. Það er ekki öll vitleysan eins. 

En annars er gott að frétta af okkur í Tenelandi, veturinn sem leið er búinn að vera algjörlega frábær veðurlega séð, vinnulega séð og tækifærislega séð. Við fögnum þessu öllu með opnum örmum og njótum þess að fikra okkur áfram nýjar slóðir. Það er nefnilega þannig að ekkert í þessu lífið gerist að sjálfu sér, en það sem við ákveðum, það gerist. 

P.s ef þú ert á leiðinni hingað, athugaðu þá hvort það sé ekki eitthvað sem við bjóðum upp á sem þig langar að gera hér á eyjunni www.tenerifeferdir.is 

Sólarkveðjur frá Tenerife

Getur fylgst með okkur hér

SnapChat : Svalik 

Instagram: svalikaldalons

Facebook: Svali á Tenerife

 

 


Eitt ár

Allt í einu er orðið ár síðan við fluttum út, tíminn gjörsamlega æðir áfram þessi misserin. Ég sá fyrsta árið fyrir mér öðruvísi, get ekki alveg útskýrt hvernig, en sá þetta öðruvísi fyrir. Ekki misskilja mig, ekki að þessi tími hafi verið verri en ég átti von á, en þetta var klárlega erfiðara en ég hafði ímyndað mér. Það er erfitt að fara rífa sig upp og flytja með alla fjölskylduna svona út, mér fannst það ekki fyrir ári en finnst það núna. Síðasti vetur var erfiður fyrir drengina í skólanum, komu inn í skólann og skildu ekki neitt. Kannski ekki við öðru að búast en þeir vildu oft hætta við og fara bara aftur heim. Það er skrýtið að vera að sannfæra börnin sín um að þetta sé allt í góðu og að þeir muni græða á þessu seinna, skilningurinn þeirra á "seinna" er ekki mikill á þessum aldri(10 og 11 ára). En svo hefur tíminn liðið og þessi vetur búinn að vera miklu betri en sá síðasti. Varð vitni að því að annar sonurinn var að tala við kennarann og það allt á spænsku, ekkert hik bara lýtalaus spænska sem þeir töluðu. Þá allt í einu fattaði ég hvað drengirnir eru komnir langt. Ég varð svo meir og stoltur af honum og þeim báðum að ég gat lítið annað gert en brosað allan hringinn. 12 mánuðum síðar tala þeir spænsku, vá hvað það er magnað og örugglega ekki slæmt að taka það með sér út í lífið.

 

Sun Activity 4 U heitir fyrirtækið okkar á Tenerife. Með fyrirtækinu fékk ég, og við sem að fyrirtækinu koma, leyfi til að vera með Íslendinga í alls kyns ferðum á eyjunni. Við munum opna heimasíðuna tenerifeferdir.is og sunactivities.net núna í janúar þar sem allt verður útlistað sem í boði verður, en þangað til er hægt að líka við síðuna okkar á Facebook "Tenerife Ferðir". Verðum þar í samskiptum við fólk sem langar að koma hingað til að skoða og njóta. En þetta verkefni er í hægum en góðum farvegi og ljóst að það eru spennandi tímar framundan. Ég er að vinna fyrir Vita í vetur, búið að vera mjög skemmtilegur tími og alveg magnað hvað ég hef kynnst mikið af farþegunum sem hafa komið og raunar eignast þar nokkra vini, það auðgar mann að hitta og spjalla við fólk það er alveg á tæru.

 

Það var frábært að eyða jólunum og áramótunum hér. Viðurkenni að það er öðruvísi en heima á Íslandi, fór lítið fyrir aðventunni og einhvernvegin var dýpra á jólaskapinu en oft áður. Ekki vantaði skreytingarnar í bæinn eða á heimilið. Það var ekki það, sennilega bara veðrið. Líka kannski að hér er ekki spiluð jólatónlist í útvarpinu og ekki mikið um jólamyndir í sjónvarpinu. Svona eitt og annað sem maður er vanur er ekki hér. Aðfangadagur hér er eiginlega bara venjulegur dagur, allt opið frameftir og ekki mikið stress. Við fórum bara út að borða í góðra vina hópi og nutum vel, komum svo með alla heim til okkar þar sem var spilað frameftir. Pakkajólin okkar voru svo á jóladagsmorgun, höfum gert það áður heima á Íslandi og það er hefð sem okkur líkar mjög vel. Allir í náttfötum að opna pakka í rólegheitum og allur dagurinn framundan til að njóta. Skil eiginlega ekki af hverju við vorum ekki löngu byrjuð á þessu. Tengdaforeldrar mínir komu svo þann 29.desember og eru með okkur hér yfir áramótin. Algjörlega frábær tími.

 

Á nýju ári 2019 ætla ég að hafa allt gal opið, takast á við nýja hluti og auðga líf mitt með jákvæðni og gleði. Njóta hvers dags eins og hann er og fárast ekki yfir litlu hlutunum sem skipta svo engu máli. Eitt sem við höfum svo sannarlega lært af þessu ferðalagi og það er að enginn veit sína "ævina..."

 

Bestu kveðjur frá okkur í Tenelandi Svali, Jóhanna, Sigvaldi, Valur og Siggi Kári. Minni svo á að það er hægt að fylgjast með okkur hér á miðlunum hér að neðan.

Snapchat : svalik

Instagram: svalikaldalons

www.sunactivities.net




Rútínan að koma

Hola amigos. Orðið dálítið síðan frá síðasta pistli og löngu kominn tími til að uppfæra ykkur um gang mála. Hér hefur lífið gengið sinn vana gang, strákarnir allir komnir í skólann og það verður að viðurkennast að við tókum fagnandi á móti rútínunni. Það var gestkvæmt í sumar og því allt sem hét regla var löngu horfin. En núna eru þeir allir í skóla og því smá næði sem við fáum í að vesenast og vinna á meðan þeir eru þar. Sá stutti, Siggi, byrjaði í skólanum 10. september og líkar bara mjög vel. Við höfðum kviðið því dálítið að fara með hann í skólann þar sem hann er búinn að vera einn með okkur hér eftir að við fluttum. Það voru tvær dálítið strembnar vikur þar sem hann vildi alls ekki ganga inn um  hliðið í skólanum. En það lagaðist hægt og rólega og nú kyssir hann mann bara bless og hleypur inn. Held að það hafi tekið meira á okkur en hann sjálfan, þetta er svo allt öðruvísi en heima á Íslandi. Við megum ekki stíga fæti inn á skóla lóðina þannig að maður þarf svona að skúbba honum inn fyrir hliðið og hvetja hann svo að fara í röðina sína fyrir utan rimlana.  Við heyrðum svo hjá honum í vikunni í fyrsta sinn þar sem hann útskýrir eitthvað sem hann var að gera í skólanum á spænsku. Sagði okkur frá bolta sem hann var að leika sér með "belota". En það verður að viðurkennast að við erum búin að taka lengri tíma í að komast í rútínu en ég reiknaði með. Svona hlutir eins og að æfa reglulega, fara í búðina á föstum degi og fleira í þeim dúr. En það er kannski líka út af því að hér er allt svo nýtt fyrir okkur þannig að það er engin rútína í neinu. En það kemur nú sennilega með tímanum. 

Skólinn hófst hér 10.september og þurftum við núna að kaupa allt efni fyrir skólann. Það er ekki gefins hér get ég sagt ykkur. 60 þúsund krónur sem það kostaði að kaupa bækur og ritföng fyrir drengina. Þetta er í ruaninni fyrsti alvöru skólaveturinn þeirra hér því í fyrra fengu þeir engar bækur og voru bara svona í einföldu efni í skólanum. En nú er þetta allt annað og nóg að bókum fyrir þá að glugga í. Fáum oft spurninguna, eru þeir sáttir? og svarið er stundum, ekki alltaf. En það er bara eins og gengur og gerist. 

Vita framlengdi við mig vinnuna út apríl 2019 og má því segja að það sé í nóg að snúast hjá mér og okkur þennan veturinn. Vinn fyrir Vita og er að koma fyrirtækinu mínu á koppinn í leiðinni og sýsla alltaf með fleiri fasteignir fyrir íslendinga. Jóhanna mun fara meira í það núna næstu misserin, ætlum að aðstoða fólk við fasteignakaup hér á eyjunni í samstarfi við íslenskt fyrirtæki. Þannig að það er eitt og annað í kortunum þessa dagana. Þannig að ef við erum spurð hvenær við ætlum að koma heim aftur að þá er ómögulegt að svara því. Erum sem stendur bara ekkert að hugsa um það, svo margt sem þarf að klára hér fyrst. 

Við skutumst heim í ágúst, ég stoppaði í viku en restin af genginu í þrjár vikur. Það var fínt að koma aðeins heim og heilsa upp á vini og vandamenn. Fannst skrítið að koma heim til Íslands og eiga ekkert þar, enga íbúð, engan bíl og svo þar fremeftir götunum. Strákarnir kíktu í skólann heima og fannst það frábært. Gaman að hitta alla og segja frá ævintýrinu og slá jafnvel um sig á spænsku. Það góða við að þeir fóru í skólann heima var að þeir áttuðu sig á því að það var alveg jafn leiðinlegt í skólanum í íslandi og hér úti. 

Svo fékk ég athyglisverðan póst um daginn frá hagstofunni. Það er verið að fetta fingrum út í það að ég sé með lögheimili á íslandi en búi hér. Ég sótti um búferlaflutning þegar við fórum en það kannski telur ekki, lögheimilið var kannski meira hugsað bara til að fá póstinn sinn sendan eitthvað. En eitt sem mér finnst merkilegt er að ég má ekki vinna hér á íslenskum launum nema í sex mánuði á ári. Þarf sem sagt að vera hálft ár heima á ári til að mega vinna á íslenskum launum. En hversvegna það, ef ég vinn á íslenskum launum og borga skatta og skyldur á íslandi, er þá ekki bara frábær kostur að hafa mig úti því ekki nota ég neitt af því sem ég borga skatt í. Hefði haldið það væri kannski frekar spænska ríkið sem ætti að krefja mig um að borga skatt hér en ekki íslenska ríkið að banna mér að borga skatta heima ef ég bý ekki þar.

Við fluttum í nýja íbúð í ágúst, þriðja íbúðin síðan við komum út. Við fáum alla veganna að vera hér í ár núna en líkur á að við getum gert svo 3 ára samning næst. Við fluttum úr Los Cristianos og yfir í Las Americas. Við erum aðeins nær kraðakinu en íbúðin er fín og nóg af krökkum hér fyrir drengina að leika sér við. Höfum reyndar aðeins lent í barningi við kakkalakka. Það skal ég fúslega  viðurkenna að mér er illa við þá, mein illa við þá. Gera manni svosem ekki neitt en þeir eru bara svo ófrýnilegir. En eftir flutninginn að þá áttar maður sig líka að hvað bíllinn er óþarfur í bænum. Ég fer allra minna ferða í vinnunni á rafmagns hlaupahjóli og það er algjörlega geggjað. Bara þvílíkur lúxus að þurfa ekki að fara allt á bílnum. 

Varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera með í sjónvarpsþáttunum Ný Sýn sem verða sýndir núna á næstunni í Sjónvarpi Símans. Tókum upp viðtal á Íslandi og hér á Tenerife. Er aðeins að stikla á því hvernig stóð á flutningnum hingað og fleira. Verð bara að viðurkenna að ég er mjög spenntur að fá að sjá þáttinn. Held að hann verði í byrjun nóvember. Kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk er til í að fylgjast með okkur hér. d

En annars er bara nokkuð gott af okkur að frétta, lífið gengur sinn vana gang hér eins og annarstaðar. Aðeins farið að kólna núna sem betur fer, búið að vera afar heitt síðan í sumar. Í næsta pistli er ég að vonast til þess að geta útskýrt almennilega fyrirtækið sem ég stofnaði hér í samstarfi við tvo aðra. En þangað til þá, bestu kveðjur frá Tenerife.

Svali og Co 

 

SnapChat : Svalik

Instagram: svalikaldalons

 


Gaman en líka erfitt

Hola amigos, héðan frá Teneveldi er allt gott að frétta. Við erum þessa dagana að fara að huga að flutning í annað húsnæði. Að mörgu leiti mun hentugra en að sama skapi þá finnst okkur leitt að fara frá Los Cristianos. Maður finnur það að það er gott að vera þar, minna um ferðamenn og meira af "lókal" fólki. Allt aðeins ódýrara heldur en á Amerísku ströndinni og fleira í þeim dúr. En nýja íbúðin er nær skólanum fyrir drengina, er eiginlega í Las Americas,  og mun fleiri krakkar þar sem eru í sama skóla, það vegur eiginlega mest.Annað atriði sem er gott, þar eru stórar svalir, raunar eru þær þrjár, og ég get loksins keypt mér grill. Mamma mía hvað ég hlakka til að fara að grilla aftur.  En við gerum árs samning og getum því komið okkur ágætlega fyrir þar. 

Sem stendur er stórfjölskyldan á svæðinu núna. Foreldrar, systur og börnin þeirra og svo stóru börnin mín. Stóri strákurinn minn heitir Nikolai Kaldalóns, býr í Noregi, verður 24 ára í október og svo María Rós Kaldalóns, prinsessan mín, verður 20 ára í september. Yndislegt að hafa alla hér, svo gaman að sýna þeim eyjuna og úsa yfir þau öllu því sem ég hef lært hér. Eitthvað svo margt að segja og deila með þeim. Þetta er yndislegur tími. 

Stundum er maður líka með í maganum. Ég er að vinna fyrir Vita, er þar reyndar bara í afleysingum en vona að það verði bara sem lengst. Viðurkenni það að ég fæ stundum í magann við að hugsa um framhaldið. Veit að í lífinu þarf maður að taka sénsa, þekki það ágætlega, en breytir því ekki að maður verður stundum hugsi yfir þessum ákvörðunum sínum. En það sem er framundan er eitthvað sem maður er að skapa. Ég stofnaði fyrirtæki hér í félagið við tvo aðra. Þetta er allt við það að komast í gang, erum að fá ferðaleyfi hér á eyjunni. Það þýðir að við getum sjálfir planað og farið í ferðir með Íslendinga sem koma hingað á eyjuna. Í augnablikinu eru hér um 1.600 íslendingar og margir þeirra til í að skoða eyjuna. Við munum bjóða upp á gönguferðir, hjólaferðir, hlaupaferðir, skoðunarferðir og fleira í þeim dúr. Þetta gerir okkur kleyft að taka líka á móti hópum og sjá um þá á meðan á dvölinni stendur. Það er gaman að vesenast í þessu og sjá að hér rétt eins og heima skiptir öllu máli að hafa einhver smá tengsl. En góðir hlutir gerast hægt og ég viðbúinn því að þetta gæti tekið einhvern tíma. Þá er bara að vona það besta og brosa. 

Takk fyrir að lesa pistilinn, gaman að fá öll þessi skemmtilegu viðbrögð. Gefur okkur heilmikið. Ég ætla að bæta við podcasti og það ætti að koma á allra næstu dögum. Verð að sjálfsögðu áfram með myndir og fleira á samfélagsmiðlunum mínum. 

SnapChat: Svalik

Instagram: svalikaldalons

FB: Svali á Tenerife 

PodCast: Væntanlegt 

Bestu kveðjur frá okkur öllum. 

 


Hálft ár

Los Cristianos Tenerife 30.júní 2018

 

Í dag eru sléttir sex mánuðir síðan við fluttum. Vá hvað tíminn flýgur hratt, stundum finnst okkur eins og við séum ekki tengd við neitt dagatal. Margir búnir að koma út að heimsækja okkur, ekki endilega búið hjá okkur en komið og verið með okkur. Þetta er auðvitað búið að vera frábær tími og við erum núna kannski komin á þann stað að finnast við vera heima.  Hvernig líður ykkur þarna, sjáið þið eftir þessu og hvað ætlið þið að vera lengi eru sennilega algengustu spurningarnar sem við fáum. Skiljanlega, því það er kannski ekkert sjálfgefið að skipta svona um gír. En til að svara spurningunum hér skriflega þá er þetta einhvernvegin svona.

Hvernig líður ykkur þarna? Okkur líður mjög vel í það heila, en stundum verðum við óttaslegin yfir því að hafa farið út í þetta. Stundum koma dagar sem heimþráin bankar uppá, stundum efast maður um að maður sé með öllum mjalla. En oftast þá líður okkur vel og erum sátt við að hafa tekið þetta skref. 

Sjáið þið ekkert eftir þessu? Það hefur aldrei verið eftirsjá, en oft efasemdir um ákvörðunina. Í rauninni þýðir ekkert að sjá eftir því að hafa tekið svona, eða bara nokkra, ákvörðun. Skaðinn er þá bara skeður og best að vinna úr því. Það hefur sína kosti að vera hér en líka galla auðvitað. Það er ekkert allt betra í sólinni þó að margt sé gott. 

Hvað ætlið þið að vera lengi? Jóhanna segir alltaf ekki minna en tvö ár, ég segi ekki minna en þrjú ár. En ef ég loka augunum og læt hugann reika að þá væri ég til í að kaupa mér íbúð hér á Tenerife og búa þar á veturna og fara svo til Ítalíu á sumrin. Vinna við að bjóða upp á svona gormet Ítalíuferðir. Taka á móti fólki og kynna því fyrir mat og drykk, fara í göngur um sveitir Ítalíu, eitthvað í þá áttina. 

En að öðrum fréttum þá er gaman frá því að segja að drengirnir okkar kláruðu skólann með bravör. Fjúka báðir upp um bekk, sem var einmitt það sem við vorum búin að kvíða mest að það myndi ekki ganga. En þrátt fyrir gamaldags skólakerfi þá eru frábærir kennarar í skólanum og án þeirra hefði þessi vetur getað verið mun erfiðari fyrir strákana en raun bar vitni. Þeir komust í sumarfrí þann 22.júní en munu þurfa að sækja auka spænsku kennslu í sumar ef þeir ætla að eiga þolanlegan vetur á næstu önn. 

Jóhanna hefur nóg fyrir stafni, við erum með þrjár íbúðir sem hún er að sjá um. Sér um þrifin, lykla afhendingar og bara almenna þjónustu við íbúðirnar. Tvær íbúðanna sem við sjáum um eru með Facebook síður þar sem hægt er að bóka húsin. Við sjáum nefnilega líka um að bóka þau. Annað húsið er í Costa Adeje og heitir síðan á Facebook, Hús til leigu í Costa Adeje, og hitt húsið er í Los Cristianos og  heitir síðan á Facebook, Hús til leigu í Los Cristianos Tenerife, en það er meira og minna uppbókað. Þriðja húsnæðið er í eigu verkalýðsfélags og er í stanslausri útleigu af félagsmönnum. Þannig að í rauninn á þessum 6 mánuðum erum við búin að koma okkur nokkuð vel fyrir vinnulega séð. 

Ég er kominn á fullt að vinna fyrir Vita þessi misserin og kann því mjög vel. Gaman að vera innan um fólk sem svo ofsalega kátt, loksins sumarfrí og svona og langflestir frábærir gestir,  en svo eru það aðrir. Ótrúlegt hvað sumir eru til í að eyða mikilli orku í að vera fúll á móti. En ég viðurkenni það að ég hef pínu gaman svoleiðis týpum. Maður bara kæfir það í glaðleg heitum og þá að það engan séns. Það er gaman að vera farastjóri, maður reynir að tryggja að allir þeir sem koma fái sitt og þeir njóti frísins eins vel og hægt er. Mér finnst skemmtilegast af þessu að fara í ferðirnar og fá að deila eyjunni með fólki. Svo ótrúlega margt að sjá og svo mögnuð sagan hér. Svo er mjög gaman að taka á móti fólki, þá eru allir svo extra kátir. En að sama skapi getur stundum verið erfitt að skila fólki, mætti halda að stundum blossaði upp allur sá pirringur sem viðkomandi hefur safnað upp um veturinn og hann látinn gossa í röðinni þegar er verið að innrita farþegana. En auðvitað skilur maður það, fúlt að fara úr fríinu og svona. 

Þegar öllu er á botninn hvolft þá líður okkur vel og við lifum bara fyrir daginn í dag. Við erum þakklát fyrir að hafa tækifæri til að fara í þetta ævintýri saman og ætlum að njóta vegferðarinnar. 

Takk fyrir að nenna að fylgjast með okkur, ekki hika við að senda okkur línu ef það er eitthvað sem þig langar að vita varðandi Tenerife. 

Mbk, Svali, Jóhanna, Sigvaldi, Valur og Siggi Kári

SnapChat: Svalik

Instagram: svalikaldalons

Facebook: Svali á Tenerife 

 

 

 


Sólin skín

Hola amigos, það er nú orðið svolítið síðan ég skrifaði síðast blogg. Íbúðin sem við erum í er á sölu, pínu bömmer  ég viðurkenni það. Búin að koma okkur svo vel fyrir og líður vel. En sem betur fer er ekki mikil hreyfing á íbúðunum hér núna því verðið á þeim er svo rosalega hátt. Bý í ca 100fm blokkar íbúð með 3 svefnherbergjum og verðmiðinn á henni er 320.000e sem er algjör bilun. En allavega þá selst hún ekki á meðan og við erum þakklát fyrir það. 

Sófinn lét loksins sjá sig sem við keyptum í ferbrúar, var í rauninni búinn að gleyma því að við höfðum keypt hann. Fékk símtal frá Conforama og mér tjáð að sófinn væri klár og hvort ég væri heima til að taka við honum. Hingað kom sendibíll með einum frekar gömlum og öðrum mjög ungum að bera sófann uppá þriðju hæð. Ekki málið fyrir þá, snöruðu honum inn, settu hann saman og tóku pappa draslið með sér og hentu því. Frábær þjónusta finnst mér. Svo kom símtal daginn eftir frá Conforama þar sem var verið að fylgja pöntuninni eftir, hvort ekki örugglega allt hafi verið í lagi og hvort sófinn hafi nokkuð skemmst í flutningnum. 

Skólinn gengur bara ágætlega hjá drengjunum. Eru í fjórða og fimmta bekk núna og fá sennilega að skríða upp um bekk á nýjum vetri. Kerfið hér virkar nefnilega þannig að ef þú nærð ekki að fóta þig í náminu t.d í fjórða bekk þá þarftu að taka hann aftur árið eftir. Get ekki útskýrt nægileg hvað ég var mikið á móti þessu en svo útskýrði skólastjórinn fyrir mér að það væru einfaldlega ekki öll börn á sama þroska stað og því ekki tilbúin að fara upp í næsta bekk. Ef þau réðu ekki við efnið í fjórða bekk núna, þá munu þau ekki ráða við það í fimmta bekk á næsta ári og það mun skapa verulega vanlíðan. Þannig að ég ákvað að vera ekki að fetta fingrum út í þetta strax. 

Sumarið er komið á Tenerife og sólin skín. Þetta er víst búið að vera köld tíð í vetur á mælikvarða heimamanna. Get ekki sagt að ég hafi mikið fundið fyrir því en t.d þá var hitastigið frá miðjum Apríl og fram í maí byrjun svipað og í janúar, sem sagt mun kaldara. Þannig að ég mjög ánægður að sjá og finna þennan hita sem á að vera núna og verður fram á næsta vetur, sem byrjar í nóvember. Sit núna á svölunum heima að skrifa á sunnudagsmorgni í 28 gráðum og hef það náðugt. Blessuð sólin. 

Það hefur eitt og annað gerst hjá okkur, maður er kominn töluvert lengra inn í kerfið og spænskan kemur í rólegheitunum hjá okkur eldri en krakkarnir æða áfram og geta tjáð sig ágætlega. Við hjónin höfum í nægu að snúast. Erum komin með tvö hús til að sjá um í útleigu, og næg verkefni þar. Við semsagt sjáum um bókanir í húsið, tökum á móti, þrífum og pössum að allt sé í stakasta lagi. Oft gott að geta bara talað íslensku við þann sem sér um húsið sem er verið að leigja. Ég sjálfur hef verið að fara í töluvert mikið af túrum með fólk. Ég býð uppá Hjólatúra, Gönguferðir og prívat ökuferð um eyjuna. Þetta hefur eiginlega bara allt sprungið út og ég haft miklu meira en nóg að gera. Þannig að nú er staðan þannig að við erum eiginlega orðnir tveir í þessu til að geta annað öllum ferðum,  ef þú ert á leiðinni hingað á eiginvegum eða með ferðaskrifstofu getur þú haft samband við mig/okkur í gegnum FB síðuna mína" Svali á Tenerife" og þar getum við svo búið til ferðir fyrir fólk eftir þörfum.  En ég sjálfur mun reyndar núna minnka ferðirnar sem ég er að fara í því ég er við það að hefja störf hjá Vita og mun starfa hjá þeim fram í Október, þannig að ég hef ekki sama tímann í þessar ferðir mínar en vinur minn hann Ásgeir Ingólfsson mun taka hitan og þungan af ferðunum í sumar. 

Bestu kveðjur, Familia Kaldalóns

Svo er alltaf hægt að fylgjast með okkur á SnapChat og Instagram

Snap : svalik 

Insta: svalikaldalons 

 


Í hvaða ævintýri er ég

Þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag var ekki klárt hvað við myndum gera hér úti. Það var í raun ekki fyrr en í desember sem komst einhver mynd á það. Ég fékk starf hjá Vita og á að byrja þar í vor, einhvertímann í mai. Svona fyrst um sinn hugsaði ég, já flott ég get þá bara slakað á þangað til og notið lífsins. Ég er gjarn á að gleyma hvernig ég er, að slaka á í 5 mánuði er bara engan veginn gerlegt. 

Ég fór því fljótlega, ca þrem vikum eftir að út var komið, að kanna gönguleiðir og spá í að fara með íslendinga á eyjunni í göngur. Ætla svo að bæta við hjólaferðum og koma fólki upp á lagið með að hlaupa í fjöllunum hér. Ég fór að nota snappið mitt(svalik) til að segja fólki frá og sýna hvað ég var að gera og boom. Nú þarf herra óskipulagður að fara að verða skipulagður. Það er skemmst frá því að segja að ég gæti gengið, hjólað eða hlaupið á hverjum einasta degi með þá íslendinga sem eru hér. Ég vissi að það þyrfti að bæta þjónustu við íslendinga hér því þeir eru frá 600 til 1000 í hverri viku á svæðinu, en mamma mía hvað þetta er magnað. Þannig að núna næstu tvær vikurnar verð ég á fullu í að "mappa" leiðir fyrir þá sem vilja fara að skrölta með mér. Fer í vikunni að semja við mikinn meistara sem er að leigja kajaka á ströndinni í Los Cristianos og verð með vikulega ferð þar sem hægt er að sigla með höfrungum og snorkla með skjaldbökum. Ég var að búa til Facebook síðu sem heitir " Svali á Tenerife" þar er hægt að senda mér fyrirspurnir um hreyfiferðir og bóka tíma. Á föstudögum þramma ég í kringum El Chinyero sem er síðasta eldfjall sem gaus á eyjunni, 1909, og sunndögum eyði ég svo í Masca eins og staðan er í dag. Hinir dagarnir fara í að búa til nýjar ferðir fyrir þá sem eru á leiðinni hingað.  Í hvaða ævintýri er ég, er hugsun kemur oft þegar ég leggst á koddann. 

Af því að ég er oft spurður út flutninginn og allt það, þá er það þannig að ef þig langar að flytja út þá þarftu bara að taka ákvörðun fyrst. Svo kemur allt hitt, vinna, skóli, húsnæði og allt í þeim dúr. Bara að taka ákvörðun. 

En annars er það að frétta af okkur að allt gengur sinn vana gang, strákarnir farnir að skilja meira og meira í spænskunni en okkur var vinsamlega bent á það á foreldrafundi að við þyrftum að einbeita okkur mun meira að spænskunni og fá okkur kennara heim. Það er planið núna semsagt að dýfa sér í spænskuna af meiri krafti. En maður vill stundum gleyma því að það eru bara tveir mánuðir liðnir og ósköp skiljanlegt að maður sé ekki altalandi ennþá. 

Bestu kveðjur frá okkur.

SnapChat: svalik 

Insta: svalikaldalons

Facebook: Svali á Tenerife

 

 


Mánuður liðinn

Hola Amigos, takk fyrir að lesa bloggið mitt. Gaman að finna áhuga á þessu ævintýri okkar á Tenerife. Við erum flutt í Los Cristianos og maður lifandi hvað það er frábært. Loksins farin að koma okkur fyrir og ég meira að segja mjög viljugur að fara í IKEA. Fengum snotra íbúð í íbúðarcomplex sem heitir Los Sauces. Búum þar á 3. hæð með litlar svalir með morgunsól, dásamlegum sundlaugargarði og allt til alls bara. Við erum alveg í skýjunum með þetta og mjög spennt fyrir þeim tímum sem eru framundan. 

Íbúðin er seld á Íslandi og því engar fjárhagsskuldbindingar til lengur, það er verulega skrítin tilfinning. Á ekkert og skulda ekkert, er enn að venjast þeirri tilhugsun. En þrátt fyrir að vera búin að selja heima þá erum við ekki á þeim buxunum að fara að kaupa hér á næstunni. Verðum í leigu fyrstu tvö árin a.m.k. 

En afhverju seldu þið íbúðina? Fáum þessa spurningu oft, og svarið er tvíþætt. Í fyrstalagi til að klippa á strenginn heim, þ.e hugsunin að maður geti bara farið heim ef þetta er erfitt. Ef maður á ekki athvarf heima þá eru minni líkur á að þú hugsir um að fara heim, heldur finnur bara leið til að redda þér hér á Tenerife. Gerum okkur grein fyrir því að við eigum eftir að fara í gegnum öldudali hvað þetta varðar en þetta var ákvörðunin og við stöndum við hana. Og á hinn bóginn er gott að vera ekki með neinar skuldbindingar á klakanum, skulda engum banka neitt á okur vöxtum.  Er svo sannfærður um að við eigum eftir að uppskera vel, læra nýtt tungumál, nýja siði og búa í öðru loftslagi. Mér finnst þetta hljóma bara eins og gott plan :-) 

Fór í fyrstu ferðina á vegum Vita á sunnudaginn(4.feb) og var gengið niður Masca gilið. Algjörlega frábær ganga, erfið á fótinn fyrir marga. Gengur niður úr 650 m hæð í 7 km. En erfiðast við gönguna er sennilega allt bröltið. Þetta er ekki manngerður stígur, heldur náttúrulegur stígur ef stíg skildi kalla. En ég mun vera með fleiri gönguferðir við allra hæfi og er í raun nú þegar búinn að setja nokkrar slíkar saman. En svo er auðvitað hjóla-hlaupa og gera allt hitt fólkið hér líka og við erum að búa til leiðir svo að fólk geti komið hingað og gert allt þetta skemmtilega með íslenskri fararstjórn. 

Spænskunámið fer að hefjast, misstum af fyrsta námskeiði sem hófst í byrjun Jan en við hendum okkur á það næsta sem hefst eftir ca tvær vikur. Gaman að segja frá því að við erum líka búin að sækja um í skóla, sem er við hliðina á okkur, til að læra spænskuna almennilega en það byrjar ekki fyrr en næsta haust og þá þrisvar í viku allan veturinn. Þannig að styttri námskeið verða að duga þangað til. 

Bestu kveðjur frá Tenerife, minni á að það er hægt að fylgjast með mér á Snapchat og Instagram

Snap: svalik

Insta: svalikaldalons

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband