14.11.2019 | 18:39
Lífið!
Lífið!
Hola amigos. Héðan, sunnan úr Atlantshafi er allt býsna gott að frétta. Get svo svarið það að suma daga geng ég um göturnar og hugsa hver fjandinn: Vá hvað þetta er búið að vera mergjað ævintýri. Miklu fleiri góðir dagar en slæmir. Velti því stundum fyrir mér að það hljóti að hafa verið einhver heillastjarna með okkur í þessu öllu, en leiði hugann líka að því hvort búast megi við einhverjum skelli á næstunni, það hljóti bara að vera fyrst manni líður svona vel núna. Eða má kannski reikna með því manni líði alltaf svona vel? Ef til vill er það kvíða elementið í mér eða óöryggis faktorinn minn sem þarna nartar. En hvað sem því líður þá eru þessi misseri frábær. Af hverju svona frábær? Sennilega vegna þess að núna eru eldri drengirnir orðnir mun sáttari við að vera hér heldur en var í lok sumars, hafa eignast vini og lífið því eðlilegra. Þegar svona umbreytingar eiga sér stað þá verður þetta daglega í lífinu allt öðruvísi og það tekur tíma að aðlagast þannig að allt verði aftur venjulegt.
Annað sem gerir þetta frábært fyrir okkur er, að við höfum náð að stofna okkar fyrirtæki sem gengur ljómandi vel, TenerifeFerðir. Af því að það gengur vel hjá okkur þá skilar það sér til drengjanna og þeir skynja að við, mamman og pabbinn, erum ánægð og sátt.
Og enn annað mál sem gerir þetta svona frábært, það er tíminn sem við eyðum saman á eyjunni. Stundum bara í að hanga saman heima og liggja í leti, fara út að borða saman, taka gönguferðir og eða bara spjöllum meira saman. Hér líður tíminn einhvern veginn öðruvísi en heima og ég hef engar skýringar af hverju.
Þannig að: já, lífð okkar hér er alltaf að verða betra og betra, en auðvitað koma erfiðari dagar með tilheyrandi, en í það heila þá er tilveran býsna góð.
Fyrirtækið!
TeneifeFerðir er fyrirtækið sem við Ásgeir Ingólfsson félagi minn stofnuðum fyrir ári síðan. Við sérhæfum okkur í ferðum um eyjuna með Íslendinga. Bjóðum upp á skoðunarferðir, gönguferðir, matar og vínferðir og auðvitað önnumst við sépantanir fyrir hópa sem hingað vilja koma og bjóðum þeim upp á allskonar afþreyingu.
Þetta hefur gengið vonum framar, og í október fór 551 farþegi með okkur í ferðir hér á Tenerife, ekki fjarri þvi að það sé um 15% Íslendinga sem komu í október. Erum stoltir af þessu, höfum náð á einu ári að koma okkur ágætlega fyrir hér og ætlum okkur meira.
Mantran okkar, meginstefið, er að við fellum aldrei niður ferðir, þó að það sé bara einn bókaður þá förum við í ferðina og það hefur náð að skila sér. Önnur hliðar mantra er sú að við viljum fókusa á að það sé gaman í ferðunum. Hæfilegur galsi í fararstjórunum en ábyrgð, öryggi og fróðleikur í fyrirrúmi. Erum persónulegir og veitum eins þægilega þjónustu og hægt er.
Í dag er ferðin Matur&Vín vinsælasta ferðin okkar. Hún er farin alla laugardaga en í september, október og nóvember höfum við alltaf þurft að hafa aukaferð á föstudögum því laugardagarnir seljast gjarnan upp. Svo hefur það lúxusvandamál komið upp, að einnig er uppselt í aukaferðina á föstudögum.
Við bjóðum upp á ferðir 6 daga vikunnar. Á mánudögum förum við hringferðina um eyjuna. Á þriðjudögum erum við alltaf með sér ferð fyrir hópa sem hafa pantað hjá okkur. Einnig er El Chinyero gangan á þriðjudögum. Á miðvikudögum er það Masca skoðunarferðin. Á fimmtudögum göngum við frá Santiago del Teide og yfir í týnda þorpið Masca. Á föstudögum er núorðið alltaf auka ferð í Matur&Vín en eftir áramót byrjum við með stjörnuskoðunarferð uppi í þjóðgarði með sérfræðingum frá stjörnuskoðunarstöðinni. Á laugardögum er svo alltaf Matur&Vín en á sunnudögum erum við í fríi. Erum með heimasíðu www.tenerifeferdir.is þar sem hægt er að lesa allt um ferðirnar. Ný heimasíða er í smíðum og þá bætist það við, að hægt verður að greiða allt á netinu, sem verður okkur og farþegum til þæginda og hægðarauka.
En útlitið er gott og við hyggjumst auka þjónustu okkar enn frekar og, erum komnir með einn höfðingja í vinnu hjá okkur sem heitir Óskar Gíslason frá Patreksfirði. Kynntumst honum óvænt í fyrra. Þannig var, að við vorum með stóran hóp fólks hjá okkur í sérstakri vikuferð, 5 göngur á 7 dögum sem varð til þess að hann aðstoðaði okkur í tvígang með þennan stóra hóp. Hann sagði okkur að hann ætlaði að eyða þessum vetri hér á Tenerife, og úr varð að við festum okkur hann þennan veturinn. Hann ætlar að taka göngurnar að sér og gengur nú um öll fjöll að finna nýjar leiðir sem gætu hentað til nýrra ferða sem við mundum síðan bjóða upp á.
Hópar og sér ferðir eru næst á dagskrá en það prógram byrjar í raun ekki fyrr en eftir áramót.
Verðlag!
Hef margsinnis séð umræðu á netinu þess efnis að allt sé mikið ódýrara annarsstaðar en á Íslandi. Vil leiðrétta þann misskilning, allvega hvað varðar verðlag á Tenerife. Það er ódýrt fyrir íslending að vera hér með sín íslensku laun eða gjaldeyri. En ef ég er að vinna á ekta Canarý launum þá er sagan bara allt önnur. Í rauninni er flest allt dýrara hér heldur en á Íslandi sé kaupmátturinn settur inn í myndina. Skil vel að t.d ellilífeyrisþegar frá Íslandi hafi það gott hér en síður heima. En ellilífeyrisþegi hér hefur það alls ekki of gott. Dæmi: Ef við notumst við niðurstöður frá google, þá eru meðallaun launþega um 600 þúsund á Íslandi. Hér eru meðallaun um 1.100 E á mánuði, miðað við gengið í dag (138kr), það gera þá kr.151.800. Miðað við þessar tölur er bensín, raftæki, nammi, tryggingar, leiga, föt og margt fleira mun dýrara hér. Dæmi: Nú er alltaf verið að auglýsa nýjan iphone dýrastu gerð, 1.640 Eur hér, en 226.320 kr eða 75.000(66%) meira en meðallaunin hér. Ef við heimfærum þetta á Ísland og meðallaunin 600.000 þá væri síminn að kosta 960.000 kr. Myndir þú fá þér símann á því verði?
En rétt er að taka það fram að hann kostar bara 225.000 kr. á Íslandi og er rúmum 1.000 krónum ódýrari en hér á Tenerife.
Hjónin!
Við Jóhanna erum kát og sæl saman á okkar vegferð. Við héldum upp á 5 ára brúðkaupsafmælið þann 18.október með vinum okkar sem komu í heimsókn. Við höfum verið saman á lífsins leið síðan 2001 og þekkjum því hvort annað nokkuð vel, en það getur auðvitað tekið á taugina að vera svona mikið saman og vinna alla hluti upp á nýtt, en það var líka fullt af hlutum heima á klakanum þar sem virkilega reyndi á. Að þessu leyti breytist nefnilega ekkert við að flytja út. Ef það voru vandamál heima, þá munu þau dúkka upp hér líka. Þannig að ef þú ætlar að flytja út, vertu þá viss um að forsendurnar séu réttar. Við, ( einkum Jóhanna), sögðum alltaf að við myndum ekki vera hér skemur en tvö ár, ég sagði þrjú ár, og svona miðað við stöðuna í dag erum við ekkert á leiðinni heim á næstunni. Alltof mikið í gangi hér til að hægt sé að hlaupast frá því og fara aftur heim.
Að lokum!
Bestu kveðjur frá Tenerife, og ein staðreynd hér í lokin. El Teide, hæsta fjall Spánar er hæsti punktur Atlantshafsins og teygir sig upp í 3718m. Sendum hér með geggjaðar stuðkveðjur sunnan úr höfum. Okkur líður vel og þér vonandi líka. Við erum á Snapchat og Instagram ef þú vilt fylgjast með okkur.
Svali
SnapChat : Svalik
Instagram: svalikaldalons
FB - Svali á Tenerife
Fyrirtækið
FB: TenerifeFerðir
Instagram: tenerifeferdir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.