Eitt ár

Allt í einu er orðið ár síðan við fluttum út, tíminn gjörsamlega æðir áfram þessi misserin. Ég sá fyrsta árið fyrir mér öðruvísi, get ekki alveg útskýrt hvernig, en sá þetta öðruvísi fyrir. Ekki misskilja mig, ekki að þessi tími hafi verið verri en ég átti von á, en þetta var klárlega erfiðara en ég hafði ímyndað mér. Það er erfitt að fara rífa sig upp og flytja með alla fjölskylduna svona út, mér fannst það ekki fyrir ári en finnst það núna. Síðasti vetur var erfiður fyrir drengina í skólanum, komu inn í skólann og skildu ekki neitt. Kannski ekki við öðru að búast en þeir vildu oft hætta við og fara bara aftur heim. Það er skrýtið að vera að sannfæra börnin sín um að þetta sé allt í góðu og að þeir muni græða á þessu seinna, skilningurinn þeirra á "seinna" er ekki mikill á þessum aldri(10 og 11 ára). En svo hefur tíminn liðið og þessi vetur búinn að vera miklu betri en sá síðasti. Varð vitni að því að annar sonurinn var að tala við kennarann og það allt á spænsku, ekkert hik bara lýtalaus spænska sem þeir töluðu. Þá allt í einu fattaði ég hvað drengirnir eru komnir langt. Ég varð svo meir og stoltur af honum og þeim báðum að ég gat lítið annað gert en brosað allan hringinn. 12 mánuðum síðar tala þeir spænsku, vá hvað það er magnað og örugglega ekki slæmt að taka það með sér út í lífið.

 

Sun Activity 4 U heitir fyrirtækið okkar á Tenerife. Með fyrirtækinu fékk ég, og við sem að fyrirtækinu koma, leyfi til að vera með Íslendinga í alls kyns ferðum á eyjunni. Við munum opna heimasíðuna tenerifeferdir.is og sunactivities.net núna í janúar þar sem allt verður útlistað sem í boði verður, en þangað til er hægt að líka við síðuna okkar á Facebook "Tenerife Ferðir". Verðum þar í samskiptum við fólk sem langar að koma hingað til að skoða og njóta. En þetta verkefni er í hægum en góðum farvegi og ljóst að það eru spennandi tímar framundan. Ég er að vinna fyrir Vita í vetur, búið að vera mjög skemmtilegur tími og alveg magnað hvað ég hef kynnst mikið af farþegunum sem hafa komið og raunar eignast þar nokkra vini, það auðgar mann að hitta og spjalla við fólk það er alveg á tæru.

 

Það var frábært að eyða jólunum og áramótunum hér. Viðurkenni að það er öðruvísi en heima á Íslandi, fór lítið fyrir aðventunni og einhvernvegin var dýpra á jólaskapinu en oft áður. Ekki vantaði skreytingarnar í bæinn eða á heimilið. Það var ekki það, sennilega bara veðrið. Líka kannski að hér er ekki spiluð jólatónlist í útvarpinu og ekki mikið um jólamyndir í sjónvarpinu. Svona eitt og annað sem maður er vanur er ekki hér. Aðfangadagur hér er eiginlega bara venjulegur dagur, allt opið frameftir og ekki mikið stress. Við fórum bara út að borða í góðra vina hópi og nutum vel, komum svo með alla heim til okkar þar sem var spilað frameftir. Pakkajólin okkar voru svo á jóladagsmorgun, höfum gert það áður heima á Íslandi og það er hefð sem okkur líkar mjög vel. Allir í náttfötum að opna pakka í rólegheitum og allur dagurinn framundan til að njóta. Skil eiginlega ekki af hverju við vorum ekki löngu byrjuð á þessu. Tengdaforeldrar mínir komu svo þann 29.desember og eru með okkur hér yfir áramótin. Algjörlega frábær tími.

 

Á nýju ári 2019 ætla ég að hafa allt gal opið, takast á við nýja hluti og auðga líf mitt með jákvæðni og gleði. Njóta hvers dags eins og hann er og fárast ekki yfir litlu hlutunum sem skipta svo engu máli. Eitt sem við höfum svo sannarlega lært af þessu ferðalagi og það er að enginn veit sína "ævina..."

 

Bestu kveðjur frá okkur í Tenelandi Svali, Jóhanna, Sigvaldi, Valur og Siggi Kári. Minni svo á að það er hægt að fylgjast með okkur hér á miðlunum hér að neðan.

Snapchat : svalik

Instagram: svalikaldalons

www.sunactivities.net




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband