5.10.2017 | 14:32
Eigum við að flytja til Tenerife?
Í vor ræddum við hjónakornin um að fara til útlanda í sumar, kíkja í sólina. Tenerife vara staðurinn sem var í umræðunni. Ég á góða félaga sem búa þar og var búinn að fá þá til að svipast um eftir íbúðum fyrir okkur til leigu. Í framhaldinu af því kom þessi umræða upp um að flytja þangað bara. Höfum reyndar aldrei komið þangað en engu að síður þá ræddum við það. Að prufa að búa í afslappaðara samfélagi en hér, búa í hita allt árið og geta lært nýtt tungumál. Þessi stutta umræða fór á þann stað að við skutumst út í haust til að kíkja á aðstæður og skoða skólamál fyrir drengina. Það er skemmst frá því að segja að við ætlum út þann 30. desember næstkomandi. Já við ætlum líka að selja allt, íbúðina og innbúið.
Ég væri að ljúga ef ég segði að ég fengi ekki bakþanka af og til, en aðalmálið er að það er komin ákvörðun. Við fáum alltaf spurninguna hvað ætlið þið að gera þarna? og í kjölfarið kemur svo fullyrðing um hvað við erum hugrökk. Mér finnst það alltaf pínu broslegt að hugsa um að þetta sé hugrekki, í augnablikinu finnst mér þetta bara vera frábært tækifæri í lífinu. Ég meina ef þú pælir í því að þá gerum við alltaf bara sama hlutinn aftur og aftur ár eftir ár. A.m.k er það þannig hjá mörgum.
Það sem hefur verið ákveðið er að við ætlum að læra tungumálið og einhenda okkur í það. Í framhaldinu mun koma betur í ljós hvað við gerum og hvar nákvæmleg við ætlum að búa á eyjunni fögru. Vissulega eru ýmsar hugmyndir en meira um það síðar. Við horfum bara á þetta þannig að það er í raun ekkert sem bindur okkur heima og því lítið annað að gera en að kíla á þetta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.