Í hvaða ævintýri er ég

Þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag var ekki klárt hvað við myndum gera hér úti. Það var í raun ekki fyrr en í desember sem komst einhver mynd á það. Ég fékk starf hjá Vita og á að byrja þar í vor, einhvertímann í mai. Svona fyrst um sinn hugsaði ég, já flott ég get þá bara slakað á þangað til og notið lífsins. Ég er gjarn á að gleyma hvernig ég er, að slaka á í 5 mánuði er bara engan veginn gerlegt. 

Ég fór því fljótlega, ca þrem vikum eftir að út var komið, að kanna gönguleiðir og spá í að fara með íslendinga á eyjunni í göngur. Ætla svo að bæta við hjólaferðum og koma fólki upp á lagið með að hlaupa í fjöllunum hér. Ég fór að nota snappið mitt(svalik) til að segja fólki frá og sýna hvað ég var að gera og boom. Nú þarf herra óskipulagður að fara að verða skipulagður. Það er skemmst frá því að segja að ég gæti gengið, hjólað eða hlaupið á hverjum einasta degi með þá íslendinga sem eru hér. Ég vissi að það þyrfti að bæta þjónustu við íslendinga hér því þeir eru frá 600 til 1000 í hverri viku á svæðinu, en mamma mía hvað þetta er magnað. Þannig að núna næstu tvær vikurnar verð ég á fullu í að "mappa" leiðir fyrir þá sem vilja fara að skrölta með mér. Fer í vikunni að semja við mikinn meistara sem er að leigja kajaka á ströndinni í Los Cristianos og verð með vikulega ferð þar sem hægt er að sigla með höfrungum og snorkla með skjaldbökum. Ég var að búa til Facebook síðu sem heitir " Svali á Tenerife" þar er hægt að senda mér fyrirspurnir um hreyfiferðir og bóka tíma. Á föstudögum þramma ég í kringum El Chinyero sem er síðasta eldfjall sem gaus á eyjunni, 1909, og sunndögum eyði ég svo í Masca eins og staðan er í dag. Hinir dagarnir fara í að búa til nýjar ferðir fyrir þá sem eru á leiðinni hingað.  Í hvaða ævintýri er ég, er hugsun kemur oft þegar ég leggst á koddann. 

Af því að ég er oft spurður út flutninginn og allt það, þá er það þannig að ef þig langar að flytja út þá þarftu bara að taka ákvörðun fyrst. Svo kemur allt hitt, vinna, skóli, húsnæði og allt í þeim dúr. Bara að taka ákvörðun. 

En annars er það að frétta af okkur að allt gengur sinn vana gang, strákarnir farnir að skilja meira og meira í spænskunni en okkur var vinsamlega bent á það á foreldrafundi að við þyrftum að einbeita okkur mun meira að spænskunni og fá okkur kennara heim. Það er planið núna semsagt að dýfa sér í spænskuna af meiri krafti. En maður vill stundum gleyma því að það eru bara tveir mánuðir liðnir og ósköp skiljanlegt að maður sé ekki altalandi ennþá. 

Bestu kveðjur frá okkur.

SnapChat: svalik 

Insta: svalikaldalons

Facebook: Svali á Tenerife

 

 


Mánuður liðinn

Hola Amigos, takk fyrir að lesa bloggið mitt. Gaman að finna áhuga á þessu ævintýri okkar á Tenerife. Við erum flutt í Los Cristianos og maður lifandi hvað það er frábært. Loksins farin að koma okkur fyrir og ég meira að segja mjög viljugur að fara í IKEA. Fengum snotra íbúð í íbúðarcomplex sem heitir Los Sauces. Búum þar á 3. hæð með litlar svalir með morgunsól, dásamlegum sundlaugargarði og allt til alls bara. Við erum alveg í skýjunum með þetta og mjög spennt fyrir þeim tímum sem eru framundan. 

Íbúðin er seld á Íslandi og því engar fjárhagsskuldbindingar til lengur, það er verulega skrítin tilfinning. Á ekkert og skulda ekkert, er enn að venjast þeirri tilhugsun. En þrátt fyrir að vera búin að selja heima þá erum við ekki á þeim buxunum að fara að kaupa hér á næstunni. Verðum í leigu fyrstu tvö árin a.m.k. 

En afhverju seldu þið íbúðina? Fáum þessa spurningu oft, og svarið er tvíþætt. Í fyrstalagi til að klippa á strenginn heim, þ.e hugsunin að maður geti bara farið heim ef þetta er erfitt. Ef maður á ekki athvarf heima þá eru minni líkur á að þú hugsir um að fara heim, heldur finnur bara leið til að redda þér hér á Tenerife. Gerum okkur grein fyrir því að við eigum eftir að fara í gegnum öldudali hvað þetta varðar en þetta var ákvörðunin og við stöndum við hana. Og á hinn bóginn er gott að vera ekki með neinar skuldbindingar á klakanum, skulda engum banka neitt á okur vöxtum.  Er svo sannfærður um að við eigum eftir að uppskera vel, læra nýtt tungumál, nýja siði og búa í öðru loftslagi. Mér finnst þetta hljóma bara eins og gott plan :-) 

Fór í fyrstu ferðina á vegum Vita á sunnudaginn(4.feb) og var gengið niður Masca gilið. Algjörlega frábær ganga, erfið á fótinn fyrir marga. Gengur niður úr 650 m hæð í 7 km. En erfiðast við gönguna er sennilega allt bröltið. Þetta er ekki manngerður stígur, heldur náttúrulegur stígur ef stíg skildi kalla. En ég mun vera með fleiri gönguferðir við allra hæfi og er í raun nú þegar búinn að setja nokkrar slíkar saman. En svo er auðvitað hjóla-hlaupa og gera allt hitt fólkið hér líka og við erum að búa til leiðir svo að fólk geti komið hingað og gert allt þetta skemmtilega með íslenskri fararstjórn. 

Spænskunámið fer að hefjast, misstum af fyrsta námskeiði sem hófst í byrjun Jan en við hendum okkur á það næsta sem hefst eftir ca tvær vikur. Gaman að segja frá því að við erum líka búin að sækja um í skóla, sem er við hliðina á okkur, til að læra spænskuna almennilega en það byrjar ekki fyrr en næsta haust og þá þrisvar í viku allan veturinn. Þannig að styttri námskeið verða að duga þangað til. 

Bestu kveðjur frá Tenerife, minni á að það er hægt að fylgjast með mér á Snapchat og Instagram

Snap: svalik

Insta: svalikaldalons

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband